Að hanna og setja upp eigin vísindasýningu getur verið krefjandi ferli, sérstaklega án fyrri reynslu og þekkingar. En engar áhyggjur, þessi vefsíða er til þess gerð að veita þér allar helstu upplýsingar til að ferlið verði bæði skemmtilegt og gefandi.
Hér má hlaða niður leiðbeiningum um það hvernig þú getur hannað, æft og frumsýnt þína eigin vísindasýningu.
Almenn skilgreining á hugtakinu vísindasýning getur verið mismunandi á milli landa, sem og á meðal atvinnufólks sem starfar við að setja upp vísindasýningar.
Til dæmis getur vísindasýning verið fyrirlestur í formi sýningar (þar sem leikari framkvæmir tilraunir og útskýrir vísindin að baki þeim); hún getur líka verið eins og leikrit með búningum og persónum sem m.a. útskýra vísindaleg fyrirbæri. Einnig getur hún verið nokkurs konar látbragð; sýning með röð tilrauna án orða.
Það sem vísindasýningar eiga þó flestar sameiginlegt er að þær innihalda a.m.k. einn flytjanda eða miðlara og viðfangsefnið sem sýningin er byggð á er vísindalegs eðlis og það er útskýrt annað hvort munnlega og/eða á sjónrænan hátt.
Að setja upp vísindasýningu er skemmtileg og áhugaverð leið til að miðla vísindum til fólks á öllum aldri og vekja almennan áhuga á vísindum. Ferlið getur verið krefjandi án fyrri reynslu eða þekkingar, hinsvegar með leiðbeiningum og ráðum sem þessari handbók er ætlað að veita, getur það verið skemmtilegt og gefandi ferli.
Auðvelt er að setja upp vísindasýningu sem hluta af verkefni í skóla eða félagsmiðstöð eða jafnvel sem skemmtidagskrá á fjölskyldusamkomum. Í þessari handbók er lögð áhersla á að uppsetningu vísindasýninga í skólaumhverfinu, en allar leiðbeiningar og ráð eiga einnig vel við í öðrum aðstæðum.
Fyrsta skrefið er að velja sér gott teymi; aðal fólkið sem þú ætlar að vinna með. Í skólanum getur það verið heill bekkur, leiklistar- eða vísindaklúbbur eða þú getur auglýst meðal allra nemenda skólans og boðið þeim sem hafa áhuga á að taka þátt. Þú þarft áreiðanlegt teymi sem þú getur deilt vinnuálaginu með, svo veldu skynsamlega.
Einnig getur það verið góð hugmynd að fá kennara og foreldra til að taka virkan þátt. Það fer eftir umfangi vísindasýningarinnar hversu marga þú þarft í teyminu, en dæmi um hlutverkaskipan eru:
Þegar teymið er tilbúið skaltu skipuleggja fundartíma til að ræða hugmyndir, fjárhagsáætlun, tímaáætlun, hlutverkaskipan o.s.frv. Auðveldast er að byrja á því að skilgreina þema og aðalmarkmið sýningarinnar (þ.e. hvað þið viljið segja við áhorfendur) og fara síðan í gegnum alla aðra nauðsynlega þætti.
Aðalatriðin til að hafa í huga eru:
Mikilvægt er að vinna með þema, það gefur ákveðinn ramma til að fylgja og tengir allar tilraunir í eina heildræna upplifun. Veldu þemað strax í upphafi. Þemað verður miðpunkturinn þar sem allt annað (söguþráður, tilraunir, sviðsmynd o.s.frv.) tengist. Þema hjálpar þér að semja söguþráðinn og velja tilraunirnar.
Þemu geta verið mjög mismunandi, svo sem eðlis- eða efnafræðileg fyrirbæri eins og eldur, vatn, rafmagn, hljóð og ljós. Þau geta líka snúist um ákveðnar aðstæður, t.d. vel þekkta sögu, glæpavettvang, tímaflakk eða hvað annað sem þér dettur í hug. Veldu þema sem teymið brennur fyrir og veitir ykkur innblástur. Í skólanum gæti þurft að bera ákvarðanir undir skólastjórn áður en haldið er áfram.
Hvernig skal velja þema? Þankahríð (e. brainstorming) er oft árangursrík leið fyrir nemendur til að koma hugmyndum sínum á blað. Ein leið er að láta alla í teyminu skrifa á minnismiða þrjú þemu sem þeir tengjast eða hafa áhuga á að vinna með. Settu síðan alla miðana á vegg svo allir geti skoðað og lesið upp og hafðu síðan kosningu um besta þemað.
Þegar vísindasýning er nýtt sem skemmtun og fróðleikur og ætluð öllum aldri þarftu að velja viðeigandi leiðir til að koma upplýsingum á framfæri og gera þannig sýninguna skemmtilega og gagnvirka fyrir alla aldurshópa. Hversu djúpt er farið í útskýringar á vísindalegum hugtökum ræður því hvaða aldurshópi eða markhópi sýningin er ætluð.
Hins vegar, ef aðalmarkiðið er að skemmta, skiptir engu máli á hvaða aldri eða af hvaða þjóðerni áhorfendur eru, tilraunir geta verið áhugaverðar og skemmtileg upplifun, jafnvel án þess að skilja orð af því sem sagt er.
Hægt að gera vísindasýningar að ævintýralegum barnasýningum, kennslustundum í vísindum með auðveldum útskýringum fyrir nemendur á miðstigi eða uppistandi fyrir fullorðna.
Það eru margvíslegar ástæður fyrir því að setja upp vísindasýningar. Þeim getur verið ætlað að skemmta, fræða, vekja athygli á ákveðnum málefnum, nýttar sem kennsluaðferð eða leið til að skilja vísindaleg fyrirbæri. Í skólum eru vísindasýningar aðallega notaðar til að fræða og gera námið skemmtilegt og spennandi. Þess vegna, áður en þú byrjar að hanna sýninguna þína, ættir þú að hugsa um markmið sýningarinnar og hvaða leiðir er hægt að fara til að ná þeim markmiðum.
Dæmigerð vísindasýning er um 20 til 40 mínútur. Hins vegar er athyglu og einbeiting yngri áhorfenda yfirleitt styttri, svo passaðu þig á að teygja ekki úr sýningunni, annars er hætta á að missa athygli áhorfenda undir lok sýningar (sjá meira um þetta í „Söguþráður og handrit“). Einnig geta lengri sýningar verið krefjandi fyrir sýnendur og aðra þátttakendur. Auðvitað vara sumar vísindasýningar í meira en klukkustund og ná að halda áhorfendum allan tímann, en það getur alltaf verið hætta á óþarfa endurtekningum og áhugaleysi áhorfenda.
Finndu leiðir til að gera sýninguna þína kraftmikla; andstæður geta gefið sýningunni lit, t.d. skemmtilegir og sorglegir þættir, hávaði og þögn, myrkur og ljós. Vísindasýning ætti að vera eins og rússíbani fyrir áhorfendur, þar sem tilfinningalegar og fræðilegar upplifanir eru í jafnvægi.
Hvað útfærslu varðar eða það hvernig vísindasýningin er „sett á svið“, þá eru möguleikarnir margir. Hún getur verið byggð á tilraunum, sem þýðir að flytjendur framkvæma tilraunir og tengja þær við aðstæður eða myndlíkingar; leikrit með leikendum á sviði byggt á handriti sem felur í sér vísindaleg viðfangsefni; saga sögð og sýnd með tilraunum; gamanleikur eða jafnvel dansverk eða söngleikur. Hvaða útfærslur henta best er ákvörðun sem tekin er meðal leikhópsins. Takið ykkur tíma í þankahríð, ræðið svo og kjósið um bestu hugmyndirnar.
Einnig er hægt að búa til vísindasýningu á netinu, eða hljóðgöngu - eins og sýningin sem er hér á vefsíðunni.
Söguþráðurinn er ferðalagið sem þú býður áhorfendum í. Hann er í raun uppbygging sýningarinnar og hjálpar þér að tengja tilraunir og alla helstu atburði sem eiga sér stað í sýningunni. En hvernig búum við til góðan söguþráð? Nemendur geta verið mjög skapandi, svo gefðu þeim tækifæri á að kanna og finna sitt innra leikskáld.
Það er alltaf möguleiki á að vinna söguþráðinn á skipulagðari hátt. Ímyndum okkur að þemað sem þið völduð sé vatn. Viðfangsefnið er því nokkuð breitt og hægt er að velja úr fjölda vísindatilrauna sem til eru og tengjast vatni. Sýningin gæti byrjað á því að segja frá uppruna vatns á plánetunni okkar. Ein leið til að sýna það með tilraun væri að kveikja í blöðru fyllta af vetni til að sýna hvörfin milli H2 og súrefnis í loftinu sem mynda efnahvarfið H2O. Síðan væri hægt að kanna efnafræði vatns og framkvæma nokkrar efnafræðitilraunir. Eftir það, væri svo hægt að kanna eðlisfræði vatns, eins og yfirborðsspennu eða eðlisvarma. Þannig vita áhorfendur við hvað er verið að fást, fylgja söguþræðinum og munu líklega leggja á minnið eitthvað af útskýringum sem fram koma.
Líklega væri auðveldasta leiðin að velja leikrit sem nú þegar er tilbúið og samtvinna nokkrar vísindatilraunir inn í söguþráðinn. Sem dæmi má nefna ævintýrið um Litla ljóta andarungann. Þú getur tekið söguþráð þessarar barnasögu, búið til úr henni leikrit og samþætt vísindatilraunir á milli atburðarása.
Þegar þú hefur ákveðið söguþráðinn í grófum dráttum, þá er best að skrifa hann niður með tillögum um tilraunir (hvenær gerast þær?), hvernig lítur sviðið út (leikmunir, lýsing)? Hver segir hvað (samræður)? Þannig hefur þú eitthvað í höndunum sem hjálpar þér að skrá og leggja á minnið hvað og hvenær allt gerist á meðan á sýningunni stendur. Með öðrum orðum: þú semur handrit. Handrit er skjal með útlistun yfir alla hljóðræna-, sjónræna- og atferlisþætti sögunnar. Þetta er hægt að vinna í samvinnu við teymið þitt, sem verkefni fyrir einn nemanda í hópnum (eftir að búið er að ákveða aðalsöguþráð og atburði sýningarinnar) eða ef nemendur eru yngri getur kennarinn verið ábyrgur fyrir því að semja handritið.
Þegar handritið er tilbúið finnið þá gott og „grípandi“ nafn á sýninguna. Nafnið ætti að vísa í þemað eða að minnsta kosti gefa vísbendingu um hvað sýningin snýst og vekja forvitni væntanlegra áhorfenda.
Sviðsmyndahönnun. Hver vísindasýning er einstök á sinn hátt og er því mikilvægt að skapa einstakt andrúmsloft fyrir ykkar sýningu. Til að aðgreina vísindakynningu eða fyrirlestur frá vísindasýningu þarftu að huga að því hvernig sviðið og flytjendur líta út. Hér eru nokkrir þættir sem þú ættir að íhuga við gerð sviðsmyndar.
Svið og vettvangur. Veldu staðsetningu þar sem er nóg pláss er fyrir sýninguna og gættu þess að áhorfendur sjái vel. Þar ætti einnig að vera öruggt svæði fyrir vísindatilraunir. Sviðið þarf ekki endilega að vera „klassískt“ leikhússvið; það getur líka verið í miðjum áhorfendahópnum eða á mismunandi stöðum í herberginu fyrir mismunandi atriði.
Lýsing. Gakktu úr skugga um að sviðið sé vel upplýst svo sýningin sjáist jafn vel fyrir fremstu og öftustu áhorfendur. Auk ljósanna sem lýsa upp sviðið er gott að nota baklýsingu, það hjálpar til við að eyða „flatleika“ herbergisins og skapar náttúrulegri sviðsmynd. Ef notaður er eldur í einhverjum tilraunum, vertu þá viss um að þú getur slökkt eða dempað ljósin svo áhorfendur sjái logana betur. Láttu ljósamann vita í hvaða röð tilraunirnar eru svo hann viti hvenær hann eigi að kveikja á, dempa eða slökkva ljósin.
Búningahönnun. Gakktu úr skugga um að allar persónur séu með eitthvað á sér sem gefur áhorfendum til kynna hverjar þær eru. Þetta geta verið búningar, leikmunir eða eitthvað eins og gríma, hattur eða kannski liturinn á fötunum (t.d. grænn fyrir maðk). Þegar þú velur búninga fyrir þau sem framkvæma tilraunir, vertu viss um að búningarnir séu öruggir (auðvelt að fjarlægja þá, engir lausir og eldfimir endar) og að möguleiki sé á að nota öryggisbúnað með búningunum (t.d. hanska og hlífðargleraugu). Vertu síðan viss um að búningarnir aftri ekki hreyfingum flytjenda og fylgi öllum öryggisráðstöfunum. Nánar um þetta má finna í „Öryggi - að vernda sig og áhorfendur“.
Leikmyndahönnun. Góð leikmynd styður flutninginn og fagurfræði hans. Mikilvægt er að uppstilling sé í samræmi við öryggisráðstafanir og takmarki ekki hreyfingar eða aðgerðir á sviðinu. Skreytingar og leikmunir á sviðinu fara eftir viðfangsefni sýningarinnar en hafðu í huga að skreytingar styðji við söguþráðinn, hjálpi til við að vekja áhuga áhorfenda og geri upplifunina eftirminnilegri (sérstaklega þegar sýningin er ætluð börnum). Um leið og tjaldið er dregið frá eða ljósin kveikt er sviðið það fyrsta sem áhorfendur munu sjá, þess vegna gegnir sviðsmyndin mikilvægu hlutverki. Eins og við vitum eru viðbrögð við fyrstu sýn áhorfenda mjög mikilvæg, hafðu það í huga þegar þú hannar sviðmyndina.
Veljið vísindatilraunir eftir að þemað hefur verið ákveðið og val þeirra ætti að haldast í hendur við söguþráðinn. Stundum er auðveldara að skrá (með hjálp Google og YouTube) ýmsar tilraunir sem tengjast þemanu og raða þeim svo upp eftir „sameiginlegum snertiflötum“.
T.d. ef þemað er sálfræði og þið hafið fundið til tilraunir sem blekkja augað og athygli eða tilraunir sem prófa minni þitt eða skynjun, þá getið þið þrengt þemað og gert það um heilann. Að öðrum kost væri hægt að finna tengipunkta milli allra tilrauna og raða þeim í viðeigandi röð og þróa þannig söguþráðinn í leiðinni.
Önnur leið væri að setja saman söguþráðinn, velja síðan „senurnar“ þar sem tilraunir eiga sér stað og reyna síðan að finna viðeigandi tilraunir. T.d. ef þú ætlar að sviðsetja ævintýrið um grísina þrjá, gætir þú gert smá tilraun í hvert skipti sem grísirnir byggja hús (með því að nota efnin sem grísirnir nota til að byggja húsin sín). Þið gætuð sýnt fram á hvað gerist ef úlfurinn reynir að eyðileggja húsin og útskýra hvers vegna það gerðist og hvað varð til þess að húsin hrundu (eða stóðu ósnortin).
Eða þegar úlfurinn klifrar niður strompinn og það kviknar í, þarna væri hægt að framkvæma tilraun með eld og útskýra hvers vegna þetta gerist (hvað við þurfum til að kveikja eld). Þegar kemur að því að velja tilraunir fyrir sýninguna eru möguleikarnir nær endalausir. Vertu bara viss um að þær uppfylli öryggiskröfur og fari ekki yfir fjárhagsáætlun hvað varðar efniskostað o.s.frv.
Öryggi er mikilvægasti hluti sýningarinnar! Sýndu sýninguna alltaf á öruggum stað og vertu viss um að áhorfendur séu nógu langt frá sviðinu. Hversu langt? Það veltur á tilraununum sem þið ætlið að framkvæma; ef sýningin er um hljóð þá geta áhorfendur verið nær sviðinu og ef kveikt verður í risastórum blöðrum fylltum af própani ættu áhorfendur að vera fyrir utan „hættusvæðið“.
Ef sýningin er sett upp á ókunnum stað (t.d. í öðrum skóla) skaltu skoða aðstæður áður en þið prófið tilraunirnar. Ef eldur kemur upp, vertu á varðbergi gagnvart gardínum, teppum og timbri og komdu því frá „hættusvæðinu“ áður en sýningin hefst.
Áður en þið framkvæmið tilraunir skaltu rannsaka vel og ganga úr skugga um að allir í sýningunni (þeir sem framkvæma tilraunina og aðrir á sviðinu) þekki allar verklagsreglur vel. Gættu þess að allir í sýningunni þekki áhættuna, hvernig bregðast megi hratt við mögulegum slysum og lágmarka tjón ef eitthvað bregður út af. Þið verðið að þekkja öll efni sem unnið er með og hætturnar sem þeim fylgja.
Athugaðu að þegar þið höndlið ákveðin efni, ætti að nota viðeigandi búnað eins og rannsóknarslopp, öryggishanska og hlífðargleraugu í hvert skipti sem farið er á svið. Ef sá sem framkvæmir tilraunirnar lítur út fyrir að vera öruggur þá upplifa áhorfendur sig einnig örugga. Ef flytjandinn lítur út fyrir að hafa ekki hugmynd um hvað hann er að gera, þá verða áhorfendur óöruggir og njóta ekki sýningarinnar sem skyldi.
Frekari upplýsingar um öryggi á efnafræðisýningum má finna hér: https://www.youtube.com/watch?v=ftACSEJ6DZA
Æfingin skapar meistarann! Því meira sem nemendur æfa, þeim mun öruggari eru þeir á sviði. Því öruggari sem þeir eru á sviði, því minna álag verður sýningin fyrir þá og þeim mun skemmtilegri verður hún fyrir áhorfendur. Auk þess að æfa sýninguna sjálfa, eru leiklistarleikir mjög gagnlegir til að brjóta niður hömlur og hrista nemendahópinn saman. Leiklistarleikir eru einnig almennt notaðir sem upphitun fyrir leikara, bæði fyrir æfingar sem og sýningar.
„Spegill“ er auðveldur og skemmtilegur leiklistarleikur sem nota má í upphitun. Paraðu nemendur og láttu hvert par velja hvor er leiðtoginn. Leiðtoginn gerir svo ýmsar hægar hreyfingar á meðan fylgjandinn hermir eftir hreyfingunni á sama tíma. Þessi leikur krefst mikillar einbeitingar því það ætti að vera erfitt að vita hvenær næsta hreyfing hefst.
Annar krefjandi leiklistarleikur kallast „Skiptu um stöð“. Veldu 2-4 nemendur og gefðu þeim atriði til að leika (t.d. björgunarmenn að bjarga einhverjum frá drukknun). Þegar þú hrópar „byrja!“ byrja nemendur að leika atriðið. Þegar þú hrópar „frjósa!“ staðnæmist atriðið. Veldu síðan sjálfboðaliða sem fer um og bankar í einhvern af leikendum, sá aðili sest niður og sjálfboðaliðinn tekur sér stöðuna sem leikarinn var í. Hrópaðu síðan aftur „byrja!“ og þá byrjar sjálfboðaliðinn (sem hoppaði inn í) nýtt atriði og hinir leikararnir þurfa að spinna sig inn í nýja atriðið. Sviðsmyndin ætti þá að vera orðin allt önnur. Í hvert sinn sem þú hrópar „frjósa!“ kemur inn nýr sjálfboðaliði og sagan endurtekur sig, þannig að í hvert sinn sem nýr leikari kemur inn breytist atriðið.
Þegar þessum upphitunarleikjum er lokið er hægt að byrja að æfa línur, hreyfingar og vísindatilraunir. Hér skiptir mestu máli að æfa og undirbúa eins mikið og hægt er. Gættu þess að hver tilraun sér prófuð og æfð nokkrum sinnum fyrir sýninguna. Einnig er gott að æfa alla sýninguna í heild án áhorfenda, ef það er möguleiki.
Ein stærsta áskorun flytjenda er að leggja línurnar sínar á minnið (ef þetta er ekki látbragðsleikur) og hvenær á að gera hvað. Til að hjálpa þeim geturðu látið þau skrifa niður línurnar sínar og lesa þær upp fyrir hvort annað. Það er líka góð hugmynd að útbúa handrit fyrir alla og láta hvern og einn undirstrika sín atriði og línur. Eitt sem flytjendur geta gert er að taka sig upp á meðan þeir lesa upp línurnar sínar og hlusta síðan á upptökuna nokkrum sinnum (og fara síðan yfir línurnar upphátt með myndbandinu).
Í ferlinu við að skipuleggja vísindasýningu er einnig mikilvægt að undirbúa kynningarmálin vel. Það væri synd ef enginn eða fáir kæmu á sýninguna. Fáðu teymið til að útbúa veggspjöld og dreifblöðunga til kynningar. Hengið veggspjöldin á auglýsingaveggi skólans og víðar, þar sem við á. Verið samt viss um að þið hafið leyfi til að hengja veggspjöldin upp (á ákveðnum stöðum þurfið þið leyfi til þess). Nýtið ykkur samfélagsmiðla til að kynna sýninguna vel og til að ná til sem flestra.
Fyrir frumsýningu skaltu fara vel yfir eftirfarandi:
Frumsýning getur verið stressandi fyrir flytjendur, svo vertu viss um að allir hafi æft sig nógu mikið og vel. Verið líka tilbúin að spinna á staðnum á meðan á sýningunni stendur ef eitthvað fer úrskeiðis, t.d. ef tilraun fer úrskeiðis væri hægt að slá því upp í grín eða framkvæma hana aftur. Hugsaðu fyrir öllu slíku á meðan á æfingum stendur. Minntu nemendur á að það er í góðu lagi ef hlutirnir virka ekki alltaf eins og þeir eiga að gera, svo framarlega sem þeir halda ró sinni og treysta sjálfum sér, þá gera áhorfendur það líka.
Nokkur ráð fyrir flytjendur, fyrir og á meðan sýningu stendur:
Að hanna og setja upp eigin vísindasýningu getur verið krefjandi ferli, sérstaklega án fyrri reynslu og þekkingar. En engar áhyggjur, þessi vefsíða er til þess gerð að veita þér allar helstu upplýsingar til að ferlið verði bæði skemmtilegt og gefandi.
Hér má hlaða niður leiðbeiningum um það hvernig þú getur hannað, æft og frumsýnt þína eigin vísindasýningu.